Á döfinni

Það er margt um að vera og nokkuð um breytingar hjá Alþjóðamálastofnun á þessum fyrstu vikum starfsársins. Breytingar hafa orðið á starfsfólki við stofnunina, nýtt efni hefur ratað inn á heimasíðuna, opnir fundir eru handan við hornið og Trans Arctic Agenda ráðstefnan á næsta leyti.

Tveir starfsmenn hafa kvatt og haldið inn á nýjan vettvang. Jón Gunnar Ólafsson, fyrrum verkefnisstjóri hjá Alþjóðamálastofnun og Rannsóknasetri um smáríki, stundar nú doktorsnám við Goldsmiths University í London og Kristinn Schram hefur tekið við lektorsstöðu við þjóðfræðideild Háskóla Íslands en um leið látið af störfum sem forstöðumaður Rannsóknaseturs um norðurslóðir.

Þær breytingar hafa því átt sér stað að nú heyra rannsóknir og útgáfumál fyrst og fremst undir Tómas Joensen en Margrét Cela verður með yfirumsjón með verkefnum Rannsóknaseturs um norðurslóðir. Nýr starfsmaður hefur hafið störf við stofnunina, Auður Örlygsdóttir, en hún mun meðal annars sinna kynningarmálum og skipulagningu viðburða. Þá sinnir Jóna Sólveig Elínardóttir áfram störfum við stofnunina og hefur yfirumsjón með stofnun nýs friðarseturs, og Pia Hansson sinnir sem fyrr stöðu forstöðumanns Alþjóðamálastofnunar.

Alþjóðamálastofnun stóð fyrir opnum fundi í byrjun vikunnar og tveir fundir eru fyrirhugaðir á allra næstu dögum. Rolf Tamnes, formaður sérfræðingahóps um nýja stefnu Noregs í öryggis- og varnarmálum, kynnti skýrsluna „Unified effort“ sem varnarmálaráðuneyti Noregs gaf nýverið út fyrir fullum sal þriðjudaginn 22. september. Yumie Hirano, sérfræðingur um málefni kjarnorkuárásanna á Hiroshima og Nagasaki, fjallar um árásirnar og hörmulegar afleiðingar þeirra á opnum fundi mánudaginn 28. september kl. 11:35 – 12:25 á Háskólatorgi, stofu 101, og sérstök veggspjaldasýning hefur verið sett upp á ganginum milli Háskólatorgs og Gimli í tengslum við fundinn. Þá mun Vijay Rangarajan, yfirmaður Evrópusviðs breska utanríkisráðuneytisins, halda erindi þriðjudaginn 6. október um samband Bretlands og ESB.

Þá er gaman frá því að segja að heimasíða Alþjóðamálastofnunar hefur tekið breytingum þar sem ný síða um þá fræðimenn sem tengjast stofnuninni hefur litið dagsins ljós. Þar er að finna upplýsingar um marga þá fræðimenn sem vinna að rannsóknum og útgáfu í samstarfi við Alþjóðamálastofnun og rannsóknasetur hennar en fleiri eiga eftir að bætast í hópinn á allra næstu dögum. Síðuna er hægt að skoða hér.

Þriðja Trans Arctic Agenda ráðstefnan er einnig á næsta leyti og dagskrá fyrir ráðstefnuna hefur þegar verið birt. Hana má nálgast hér. Skráning fer fram í gegnum tölvupóst, á caps@hi.is, en gefa þarf upp nafn og titil/stöðu. Skráningarfrestur er til 12. október 2015.

Alþjóðamálastofnun er að vonum full tilhlökkunar við upphaf nýs starfsárs. Látið ekki útgáfur og komandi fundi og ráðstefnur fram hjá ykkur fara og fylgist með á www.ams.hi.is, www.caps.hi.isFacebook og Twitter.