Tímamót á Kúbu?

Mánudaginn 9. nóvember kl. 12:00 til 13:00 í fundarsal Þjóðarbókhlöðunnar

Opinn fundur á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands

Tímamót á Kúbu?

Eftir áratuga deilur og fjandskap tóku Kúba og Bandaríkin aftur upp stjórnmálasamband í júlí á þessu ári. Þetta þykir mörgum til marks um skref í rétta átt en hvaða áhrif hefur þetta raunverulega á alþjóðasamskipti Kúbu og stjórnmálalíf Kúbverja sjálfra? Hver er framtíðarsýn núverandi leiðtoga landsins, Raúls Castro, fyrir landið og íbúa þess? Er lýðræði í sjónmáli á Kúbu?

Orlando Luis Pardo Lazo (@OLPL) er kúbanskur rithöfundur, blaðamaður, bloggari, ritstjóri, ljósmyndari og félagslegur aktívisti. Lazo flúði Kúbu árið 2013 þar sem hann var ofsóttur fyrir skrif sín og stjórnmálaskoðanir og hann hefur nú fengið skjól hjá Reykjavíkurborg í gegnum alþjóðlega skjólborgarverkefnið International Cities of Refuge Network eða ICORN.

Fundurinn fer fram á ensku og eru allir velkomnir.

Alþjóðamálastofnun á Facebook: https://www.facebook.com/althjodamalastofnun/

Lazo fæddist árið 1971 á Kúbu og útskrifaðist sem lífefnafræðingur frá háskólanum í Havana árið 1994. Hann starfaði um árabil sem sameindalíffræðingur í Miðstöð erfðatækni- og líftæknirannsókna, þar til hann var rekinn af pólitískum ástæðum. Hann er vefstjóri bloggsíðunnar „Lunes de post-Revolución“ en í heimalandi sínu ritstýrði hann einnig sjálfstæðu stafrænu tímaritunum, Cacharro (s), The Revolution Evening Post, og Voces. Síðan hann flúði hefur hann haldið fyrirlestra í mörgum bandarískum háskólum um félagslegar aðgerðir á Kúbu, borgaralegt samfélag og ritskoðun bókmennta af hálfu kúbanska ríkisins. Á árunum 2014-2015 var hann félagi í International Writer Project við Brown Háskóla í Bandaríkjunum, þar sem hann var einnig aðjúnkt í ritlist í rómönskum fræðum. Lazo ritaði bókina Boring Home sem hlaut tékknesku bókmenntaverðlaunin 2014 og skrifaði og ritstýrði smásagnasafninu Cuba in Splinters; Eleven Stories from the New Cuba.