Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands standa fyrir opnum síðdegisfundi fimmtudaginn 12. nóvember 2015, kl. 17:00 – 18:00, í stofu 101 í Odda, þar sem Ásthildur Elva Bernharðsdóttir mun kynna nýútkomna bók sína undir yfirskriftinni:
Samspil menningar og áfallastjórnunar:
Hvaða áhrif hafa menningarsjónarmið á hegðun stjórnenda í viðbúnaði og viðbrögðum vegna áfalla?
Að erindi hennar loknu verður tími fyrir umræður, en fundarstjóri verður Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild HÍ.

Ásthildur Elva Bernharðsdóttir er cand. oecon frá Viðskiptafræðideild HÍ og doktor frá Stjórnmaálafræðideild HÍ. Hún hefur starfað við rannsóknir og kennslu við Jarðskjálftamiðstöð HÍ á Selfossi, er fyrrverandi forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og Smáríkjaseturs og var fyrsti framkvæmdastjóri Gæðastjórnunar Íslands, nú Stjórnvísi. Ásthildur hefur stundað rannsóknir í Svíþjóð og Bandaríkjunum, kennt áfallastjórnun og leiðbeint nemendum bæði hér heima og við háskólann í Syracuse. Hún hefur gefið út efni um áfallastjórnun, komið saman hópi fræðimanna til rannsókna á áfallastjórnun á Íslandi og tók einnig þátt í þróun áætlana fyrir sveitarfélög er varða viðbúnað, viðbrögð og uppbyggingu vegna samfélagslegra áfalla.