Nýtt norðurslóðaverkefni hlýtur styrk frá norrænni samstarfsnefnd

Norræna samstarfsnefndin um hug- og félagsvísindarannsóknir (NOS-HS) veitti nýlega styrki til norrænna rannsóknasamstarfsverkefna. Á meðal verkefna sem hlutu brautargengi er nýtt tenglsanet sem mun rannsaka félags- og menningarleg áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum. Tengslanetið, sem kallað er Northgate, sameinar bæði reynda og nýja fræðimenn frá fjölmörgum norrænum háskólum. Samstarfsverkefnið mun stuðla að rannsóknum og auknum tengslum fræðimanna við stefnumótunaraðila og samfélög sem finna í auknum mæli fyrir hröðum umhverfisbreytingum og hreyfanleika fólks á svæðinu. Rannsóknasetur um norðurslóðir mun halda utan um verkefnið næstu tvö árin en umsjón með verkefninu hefur Kristinn Schram, lektor í þjóðfræði við Háskóla Íslands.