Sumarskóli Rannsóknaseturs um smáríki verðlaunaður

Sumarskóli Rannsóknaseturs um smáríki við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands er eitt tíu verkefna sem fá gæðaviðurkenningu menntaáætlunar Evrópusambandsins í ár. Viðurkenningarnar voru afhentar við hátíðlega athöfn í Ásmundarsafni þann 10. desember.

Verkefnin tíu sem hlutu viðurkenningarnar eiga það sammerkt að hafa hlotið styrk frá menntaáætlun ESB og fékk Sumarskóli Rannsóknaseturs um smáríki styrk í gegnum svokallaða Erasmus+ áætlun. Verðlaunaverkefnin eiga það sameiginlegt að hafa sýnt fram á nýsköpun og nýbreytni í menntun, stuðlað að þátttöku fjölbreyttra hagsmunahópa í alþjóðasamstarfi og haft áhrif á skólastarf einstakra stofnana og víðtækari áhrif í skólasamfélaginu.

Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, tóku við viðurkenningunni fyrir hönd skólans en hún var í formi myndverks sem 15 nemendur á öðru ári í teiknideild Myndlistarskóla Reykjavíkur hönnuðu.

Sumarskóli Rannsóknaseturs um smáríki við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands hefur verið starfræktur frá árinu 2003 í samstarfi við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands en upphafsmaður skólans er Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, sem jafnframt er rannsóknastjóri Rannsóknaseturs um smáríki. Að sögn Piu hafa meira en 400 nemendur víðs vegar úr heiminum sótt skólann og margir þeirra hafa í kjölfarið farið í  framhaldsnám á sviði smáríkjafræða, ýmist við Háskóla Íslands eða annars staðar.

„Núna erum við bæði með sumarskóla og vetrarnámskeið í Vilnius auk þess að vera með ýmsa aðra dýpri samvinnu. Við erum að búa til námskeið og námsefni sem verður aðgengilegt öllum sem hafa áhuga á að stúdera hvernig smáríkjum vegnar í Evrópu og þá kannski sérstaklega með tilliti til Evrópusambandsins og Evrópusamrunans,“ er haft eftir Piu á heimasíðu Rannís, sem hefur umsjón með styrkjum úr menntaáætlun Evrópusambandsins.

„Setrið sjálft hefur grætt mikið á þessu í gegnum tíðina, svo sem möguleikann á því að skapa tengsl við fræðimenn á þessu sviði frá allri Evrópu og víðar. Við höfum fengið nemendur alls staðar að og ásóknin í skólann er sífellt að aukast. Við fáum fyrirspurnir frá fólki um allan heim,“ segir Pia enn fremur og bætir við: „Ég held að nemendur græði á því að koma hingað og sjá smáríki sem hefur staðið sig vel í alþjóðlegu samhengi.“