Sumarskóli Rannsóknaseturs um smáríki 2016

Rannsóknasetur um smáríki við Háskóla Íslands stendur fyrir sumarskóla um smáríki og stöðu þeirra í Evrópu dagana 20. júní – 2. júlí 2016. Þetta er í fjórtánda sinn sem setrið skipuleggur sumarskóla af þessu tagi. Framúrskarandi nemendur frá sex háskólum í Evrópu taka þátt í skólanum að þessu sinni ásamt erlendum fræðimönnum sem taka að sér kennslu.

Sumarskólinn er hluti af stærra Erasmus+ stefnumiðuðu samstarfsverkefni á háskólastigi en skólinn hlaut á þessu ári gæðaviðurkenningu menntaáætlunar Evrópusambandsins, sjá nánar hér. Háskóli Íslands leiðir verkefnið en fimm aðrir háskólar taka þátt í því: Kaupmannahafnarháskóli, Háskólinn í St. Andrews í Skotlandi, Háskólinn í Vilnius, Háskólinn í Tallinn og Háskólinn á Möltu. Skólarnir sex hafa unnið að því að þróa nánara samstarf á sviði smáríkjafræða meðal annars með því að halda sumarskóla, ráðstefnur, standa að stúdentaskiptum og þróa samstarf í kennslu.

Háskólinn á Möltu, í samstarfi við Rannsóknasetur um smáríki, skipulagði fyrstu ráðstefnuna í maí 2015 en næsta ráðstefna í verkefninu verður haldin í Tallinn 15. apríl næstkomandi. Dagana 24. -30. janúar 2016 standa háskólarnir fyrir vetrarskóla í Vilníus þar sem áhersla verður lögð á breytt umhverfi í öryggismálum í kjölfar innlimunar Krímskaga í Rússland og þau áhrif sem breytingarnar koma til með að hafa fyrir smáríki í Evrópu. Rannsóknasetur um smáríki heyrir undir Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands.