Vetrarskóli um smáríki 2016 í Vilníus

Dagana 24. – 30. janúar 2016 stendur Rannsóknasetur um smáríki og Háskólinn í Vilníus fyrir vetrarskóla um smáríki þar sem áhersla verður lögð á breytt umhverfi í öryggismálum í kjölfar innlimunar Krímskaga í Rússland og þau áhrif sem breytingarnar koma til með að hafa fyrir smáríki í Evrópu.

Vetrarskólinn er hluti af tveggja ára stefnumiðuðu samstarfsverkefni á háskólastigi sem fjármagnað er af Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins. Rannsóknasetur um smáríki við Háskóla Íslands leiðir verkefnið en fimm aðrir háskólar taka þátt í því: Kaupmannahafnarháskóli, Háskólinn í St. Andrews í Skotlandi, Háskólinn í Vilníus, Háskólinn í Tallinn og Háskólinn á Möltu. Nemendur frá öllum skólunum sex koma til með að sækja vetrarskólann í Vilníus en kennslan verður í höndum helstu sérfræðinga í málefnum smáríkja.

Markmiðið með þessu samstarfsverkefni er að þróa nánara samstarf á sviði smáríkjafræða, meðal annars með því að halda sumarskóla, ráðstefnur, standa að stúdentaskiptum og þróa samstarf í kennslu. Háskólinn á Möltu, í samstarfi við Rannsóknasetur um smáríki, skipulagði fyrstu sameiginlegu ráðstefnu háskólanna sex í maí 2015 en næsta ráðstefna í verkefninu verður haldin í Tallinn þann 15. apríl nk.