Þátttaka í nýju Jean Monnet Network verkefni

Rannsóknasetur um smáríki tekur þátt í rannsóknarverkefni sem hlaut nýverið styrk úr Jean Monnet Network sjóðnum. Háskólinn á Möltu og Maastricht háskóli leiða verkefnið en markmið þess er að rannsaka þær áskoranir og tækifæri sem felast í stefnumótun á sviði heilbrigðismála fyrir smáríki, jafnt innanlands sem og á evrópskum vettvangi. Áhersla verður lögð á margvísleg hagnýt málefni á sviði heilbrigðismála, s.s. krabbamein, hreyfanleika heilbrigðisstarfsfólks milli landa, aðgengi að lyfjum og sjaldgæfa sjúkdóma.

Verkefninu er ætlað að ná til rannsakenda, heilbrigðisstarfsfólks og stefnumótandi aðila, jafnt innanlands sem utan, með það að markmiði að auka áhrif og aðkomu smáríkja að umræðu um heilbrigðisstefnu innan ESB. Einnig er verkefninu ætlað að auka meðvitund um ólík áhrif Evrópusamrunans innan ríkja Evrópu og að auka skilning á mikilvægi fjölbreytileika fyrir þróun, innleiðingu og samstarf á sviði heilbrigðismála í Evrópu.

Samstarfsverkefnið nær til háskóla og heilbrigðisstofnana á Möltu, Eistlandi, Slóveníu, Hollandi og Íslandi. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, dósent í opinberri stjórnsýslu og stefnumótun við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, hefur yfirumsjón með rannsókninni fyrir hönd Rannsóknaseturs um smáríki.