Saga Evrópusamrunans: Evrópusambandið og þátttaka Íslands

Nú um áramótin kom út fyrsta heildstæða kennslubókin á íslensku um Evrópusamrunann og tengsl Íslands við hann. Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og Rannsóknasetur um smáríki, í samstarfi við Háskólaútgáfuna, standa að útgáfu bókarinnar sem er hugsuð fyrir seinni stig framhaldsskóla og fyrsta stig háskólanáms.

Titill bókarinnar er Saga Evrópusamrunans: Evrópusambandið og þátttaka Íslands. Í bókinni er saga Evrópusamrunans rakin frá síðari heimsstyrjöldinni til dagsins í dag og gerð grein fyrir ákvarðanatöku og málaflokkum Evrópusambandsins. Þátttöku Íslands í Evrópusamstarfi í gegnum EFTA, EES og Schengen er einnig gerð sérstaklega skil ásamt því að fjallað er um smáríki í Evrópu og stöðu þeirra í Evrópusambandinu.

Bókinni er ætlað að bæta úr þeim skorti sem er á frumsaminni kennslubók á íslensku um Evrópusamrunann. Íslendingar eru mikið tengdir stofnunum Evrópusambandsins í gegnum þátttöku í Evrópska efnahagssvæðinu (EES) og Schengen og því er mjög mikilvægt að auka og efla þekkingu á uppbyggingu, sögu, starfsháttum og forsendum Evrópusamrunans en bókin er liður í því þarfa verki.

Bókina má nálgast í öllum betri bókabúðum landsins en athygli er vakin á því að bókin er aðgengileg öllum þeim sem áhuga hafa á því að kynna sér vel Evrópusamrunann og þátttöku Íslands í Evrópusamstarfi.

Útgáfa bókarinnar er styrkt af Þróunarsjóði námsgagna og Jean Monnet áætluninni.