Andlát: Alyson J.K. Bailes

Alyson J.K. Bailes lést í Skotlandi föstudaginn 29. apríl sl. Alyson starfaði í 30 ár í bresku utanríkisþjónustunni og gegndi þar fjölda trúnaðarstarfa, síðast starfi sendiherra í Helsinki. Hún var forstöðumaður Alþjóðafriðarrannsóknastofnunarinnar (SIPRI) í Stokkhólmi á árunum 2002-2007, þegar að hún tók við starfi aðjúnkts við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Hún var einnig gestaprófessor við College of Europe í Brugge 2010-2015.

Alyson var ein af virtustu fræðimönnum á sviði varnar- og öryggismála í Evrópu, vopnaeftirlits og afvopnunar. Við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands sérhæfði hún sig í utanríkismálum Norðurlanda, Norðurslóðamálum og smáríkjafræðum. Hún tók virkan þátt í starfi Alþjóðamálastofnunar og Rannsóknaseturs um smáríki við HÍ og var um tíma formaður stjórnar þeirra. Þá tók hún þátt í stofnun Rannsóknaseturs um norðurslóðir innan Alþjóðamálastofnunar. Alyson var afkastamikill fræðimaður og birti árlega tugi fræðigreina auk þess sem hún ritstýrði fjölmörgum bókum og ritum. Hún var óþreytandi við að halda fyrirlestra um alla Evrópu og veita rannsóknastofnunum, félagasamtökum og ríkjum ráðgjöf á ofangreindum sérsviðum. Alyson lagði metnað í að aðstoða nemendur sína og unga vísindamenn og veita þeim innblástur til frekara náms og starfa. Hún hlaut fjölda viðurkenninga fyrir störf sín.

Til að minnast Alyson og framlags hennar til fræðanna hafa Stjórnmálafræðideild HÍ, Alþjóðamálastofnun HÍ og breska sendiráðið í Reykjavík ákveðið að veita árlega verðlaun í hennar nafni fyrir framúrskarandi BA eða MA ritgerð á sviðum öryggismála, Norðurslóðarannsókna eða utanríkistefnu Norðurlandanna.

Alyson var fædd í Manchester í Bretlandi 6. apríl árið 1949. Hún stundaði nám við The Belvedere School í Liverpool og Somerville College í Oxford háskóla þaðan sem hún útskrifaðist með BA próf í nútímasögu með ágætiseinkunn árið 1969 og MA próf árið 1971. Alyson var gerð að heiðursfélaga við Somerville College árið 2001. Hún lætur eftir sig móður, systur og bróður í Bretlandi.