Minningarathöfn um Alyson J.K. Bailes

Minningarathöfn um Alyson JK Bailes verður haldin þriðjudaginn 31. maí nk. kl. 15:00 á Litla-torgi (Háskólatorg) í Háskóla Íslands.

Alyson lést í Skotlandi föstudaginn 29. apríl sl.

Alyson Bailes fæddist í Manchester í Bretlandi 6. apríl árið1949. Hún stundaði nám við The Belvedere School íLiverpool og Somerville College í Oxford háskóla þaðan sem hún útskrifaðist með BA-próf í nútímasögu með ágætiseinkunn árið 1969 og MA-próf árið 1971. Hún var gerð að heiðursfélaga við Somerville College árið 2001.

Alyson starfaði í 30 ár í bresku utanríkisþjónustunni og gegndi þar fjölda trúnaðarstarfa, síðast starfi sendiherra í Helsinki. Hún var forstöðumaður Stockholm International Peace Research Institute (SIPRI) á árunum 2002-2007 þegar hún tók við starfi aðjúnkts við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Hún var einnig gestaprófessor við College of Europe í Brugge 2010-2015.

Alyson Bailes tók virkan þátt í starfsemi Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands þann tíma sem hún bjó og starfaði á Íslandi. Auk þess að vera stjórnarformaður til tveggja ára sinnti hún margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir stofnunina. Reynsla hennar og þekking var stofnuninni ómetanleg.

Hún lætur eftir sig móður, systur og bróður í Bretlandi.