Samið um rannsókn á stöðu flóttafólks og innflytjenda

Í dag var undirritaður samningur Háskóla Íslands og innanríkisráðuneytisins og velferðarráðuneytisins um gerð heildstæðrar greiningar og mats á gæðum aðlögunar innflytjenda og flóttafólks að íslensku samfélagi. Samningurinn var undirritaður í upphafi fimmta fundar Háskóla Íslands í fundaröðinni Fræði og fjölmenning þar sem fjallað var um ný útlendingalög og áhrif þeirra á réttarstöðu innflytjenda og flóttafólks.

Tilurð samstarfsins er skýrsla Ríkisendurskoðunar frá mars 2015 þar sem bent er á fjölmörg atriði sem þyrfti að endurskoða til að bæta lagaumhverfi, stjórnsýslu og skipulag þegar kemur að málefnum innflytjenda og flóttafólks hér á landi. Með vísan til hennar var það mat ríkisstjórnar að tillögu innanríkisráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra að ráðast þyrfti í sameiginlegt verkefni á vettvangi stjórnarráðsins til að skoða margvíslega þætti sem varða stjórnsýslu og þjónustu á þessu sviði og greina tækifæri fyrir úrbætur.

Í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnar Íslands um að ráðast í sameiginlegt verkefni á vettvangi Stjórnarráðsins, höfðu innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið samband við Háskóla Íslands um aðkomu skólans að verkefninu. Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands sér um verkefnastjórnun með hjálp stýrihóps með fulltrúum frá Háskóla Íslands sem tengjast átaki skólans Fræði og fjölmenning. Til að greina sem flesta þætti sem snerta aðlögun flóttafólks verður leitað til fræðimanna frá mismunandi deildum Háskólans til að koma að rannsókninni og þannig fá heildstæða greiningu á þjónustu og aðstoð við innflytjendur og flóttafólk á Íslandi.