Geta kvikmyndir stuðlað að friði?

Pallborðsumræður í samstarfi við Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, á opnunarmálþingi HÖFÐA Friðarseturs Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands í Hátíðasal Háskóla Íslands sem hefst kl. 13:00 föstudaginn 7. október 2016.

Sjónum verður beint að áhrifamætti miðlunar og hvernig nýta megi mátt kvikmyndarinnar til þess að hafa áhrif á friðarhorfur í heiminum í dag. Meðal framsögumanna verða hinn margrómaði leikstjóri Darren Aronofsky og sýrlenska útvarps- og heimildamyndagerðarkonan Obaidah Zytoon, ásamt leikstjórum myndarinnar InnSæi – the Sea within þeim Hrund Gunnsteinsdóttur og Kristínu Ólafsdóttur.

Meðal þekktari mynda Darren Aronofsky er hin margrómaða verðlaunamynd Black Swan, Requiem for a Dream, The Wrestler og Noah, sem tekin var að hluta til hér á landi.

Obaidah Zytoon er sýrlensk útvarpskona sem flæktist í atburðarás Arabíska vorsins árið 2011. Obaidah tók upp eigin raunir og raunir vina sinna á meðan á umrótinu stóð og fylgdi þeim eftir næstu sjö árin. Úr varð heimildamyndin The War Show sem sker sig úr öðrum sýrlenskum heimlidamyndum fyrir að draga fram þær ólíku merkingar sem byltingin hafði fyrir hinn almenna borgara í stað þess að einblína á blóðbaðið og hörmungarnar.

Umræðum stjórnar Björn Þór Vilhjálmsson, lektor við Háskóla Íslands.