Friðarfræðsla í íslensku samfélagi

Friðarfundur: HÖFÐI Friðarsetur
15. DESEMBER 2016 – 20:00
STAÐUR VIÐBURÐAR:
HAFNARHÚS

Í Hafnarhúsi standa nú yfir þrjár sýningar þar sem listamennirnir Yoko Ono, Erró og Richard Mosse takast á við stríðsátök og vonir um heimsfrið. Af þessu tilefni býður safnið ólíkum félagasamtökum og hópum sem standa vörð um frið og mannréttindi að kynna málstað sinn. Friðarfundirnir fara fram á fimmtudagskvöldum í nóvember og inn í aðventuna í desember.

Friðarfundirnir fara fram á íslensku og eru öllum opnir án endurgjalds. Listasafnið og Kaffi & matstofa frú Laugu eru opin til kl 22 á fimmtudagskvöldum.

Friðarfræðsla í íslensku samfélagi
Friðarfræðsla er mikilvægur hluti af starfsemi HÖFÐA Friðarseturs en eitt af helstu verkefnum setursins verður að koma á fót sumarnámskeiði fyrir börn af ólíkum uppruna. Eyrún Björk Jóhannsdóttir og Auður Örlygsdóttir kynna starfsemi setursins og leiða gesti í gegnum markmið og tilgang námskeiðsins. Í lokin fá gestir að spreyta sig á einu af þeim skemmtilegu viðfangsefnum sem börnin koma til með að leysa.

HÖFÐI Friðarsetur er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands og tók formlega til starfa þann 7. október síðastliðinn. Markmið með stofnun setursins er að skapa vettvang fyrir þverfaglegt og alþjóðlegt samstarf þar sem áhersla er lögð á hlutverk borga, smáríkja og almennra borgara í að stuðla að friði, friðarmenningu og friðarfræðslu.

Nánar um sýningarnar
Yoko Ono berst fyrir friði með aðferðum konseptlistarinnar þar sem hún vekur fólk til umhugsunar og hvetur til aðgerða. Viðamikil sýning á verkum hennar, YOKO ONO: EIN SAGA ENN…, er nú uppi í listasafninu auk þess sem Friðarsúla listakonunnar lýsir upp vetrarkvöldin frá Viðey.

Málverk Errós endurspegla söguleg og ímynduð átök þar sem hann skeytir saman fundnu efni úr myndheimi áróðurs, satíru og skops. Á sýningu hans, Stríð og friður, eru valin verk úr safneignum Listasafna Reykjavíkur og Íslands.

Richard Mosse sýnir ljósmyndir og kvikmyndainnsetningu, Hólmlenduna, sem byggist á ferðum hans um stíðshrjáð héruð Kongó. Myndefnið er fangað á innrauðar filmur sem hannaðar voru í þeim hernaðarlega tilgangi að koma upp um felustaði og –búninga.