Öryggi smáríkja – nýtt rannsóknarverkefni

Rannsóknasetur um smáríki við Háskóla Íslands hlaut nýverið styrk frá Atlantshafsbandalaginu (NATO). Um er að ræða þriggja ára verkefni sem Háskóli Íslands leiðir, en þrír aðrir háskólar taka þátt: Háskólinn í Canterbury á Nýja Sjálandi, Georgestown háskóli í Bandaríkjunum og Háskólinn í Vilnius í Litháen. Rannsóknasetur um smáríki heyrir undir Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands.

Baldur Þórhallsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og rannsóknastjóri setursins, fer fyrir verkefninu en sameiginleg verkefnisstjórn verður á vegum Rannsóknaseturs um smáríki.

Verkefninu er ætlað að dýpka skilning á stöðu smáríkja í breyttu alþjóðlegu öryggisumhverfi og skoða hvernig þau geta sem best mótað stefnur sínar í utanríkis- og öryggismálum. Því betur sem smáríkin geta brugðist við þeim áskorunum koma upp því meira geta þau lagt af mörkum til að stuðla að góðu samstarfi innan NATO og við samstarfsríki bandalagsins. Smáríki sem eru aðilar að NATO verða skoðuð sérstaklega sem og ríki Austur-Evrópu, Eyjaálfu, Mið-Austurlanda og Norður-Afríku (MENA svæðið).

Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna hér.

Frekari upplýsingar um verkefnið veita:

Margrét Cela, verkefnisstjóri verkefnisins, mcela@hi.is

Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar, ams@hi.is