Rannsóknarstyrkir fyrir MA ritgerðir um málefni flóttafólks og innflytjenda

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands í samstarfi við velferðarráðuneytið og innanríkisráðuneytið auglýsir eftir umsóknum um styrki til MA ritgerða sem fjalla um málefni flóttafólks og innflytjenda. Veittir verða tveir 200.000 króna styrkir.

Í febrúar gaf Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands út skýrslu þar sem gæði þjónustu við flóttafólk á Íslandi var greind. Í skýrslunni er fjallað um ýmis málefni sem flóttafólkið sjálft og sérfræðingar sem vinna að málefnum flóttafólks bentu á að betur megi fara, móttaka flóttafólks á Norðurlöndunum er borin saman auk þess sem skoðaðir eru möguleikar á umbótum á málefnum útlendinga og innflytjenda almennt með það í huga að auka samþættingu og skilvirkni stjórnsýslunnar.

Greiningin á rætur að rekja til skýrslu Ríkisendurskoðunar frá mars 2015 þar sem bent er á ýmis atriði sem þarfnast endurskoðunar til að bæta lagaumhverfi, stjórnsýslu og almennt skipulag þegar kemur að málefnum flóttafólks og innflytjenda hér á landi.

Hér má nálgast skýrsluna Greining á þjónustu við flóttafólk.

Hér má nálgast skýrslu ríkisendurskoðunar um málefni útlendinga og innflytjenda.

Í umsóknum skal koma fram greinargóð lýsing á rannsókninni, markmiðum hennar og ávinningi. Ennfremur skal tilgreina hvernig rannsóknin tengist þeim málefnum sem fjallað er um í skýrslunum og ástæða er til að skoða frekar.

Umsóknarfrestur er til 21. apríl 2017

Umsóknir sendist með tölvupósti á  ams@hi.is

Nánari upplýsingar veitir Auður Birna Stefánsdóttir, verkefnastjóri hjá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, netfang: audurstefans@hi.is eða í síma Alþjóðamálastofnunar 525-5262.