Sumarskóli Rannsóknaseturs um smáríki 2017

Rannsóknasetur um smáríki við Háskóla Íslands stendur fyrir sumarskóla um smáríki og stöðu þeirra í Evrópu dagana 19. júní – 1. júlí. Þetta er fimmtánda árið í röð sem setrið skipuleggur sumarskóla af þessu tagi. Framúrskarandi nemendur frá 10 háskólum í Evrópu taka þátt í skólanum að þessu sinni ásamt erlendum fræðimönnum sem taka að sér kennslu.

Sumarskólinn er hluti af stærra Erasmus+ stefnumiðuðu samstarfsverkefni á háskólastigi, “Smáríki í Evrópu: Í átt að þverfræðilegri nálgun”. Háskóli Íslands leiðir verkefnið en níu aðrir háskólar taka þátt í því: Kaupmannahafnarháskóli, Háskólinn í St. Andrews í Skotlandi, Háskólinn í Vilnius, Háskólinn í Tallinn, Háskólinn á Möltu, Háskólinn í Lundi, Háskólinn í Ljubljana, Queen Mary háskóli í London og Comenius háskóli í Bratislava.

Markmið samstarfsverkefnisins er að skapa víðtækt evrópskt samstarfsnet sérfræðinga í smáríkjafræðum sem mun þjálfa unga kennara og fræðimenn í að nýta sjónarhorn smáríkjafræðanna í rannsóknum sínum og kennslu. Sumarskólinn er skipulagður með þetta að leiðarljósi þar sem hann mun einblína á fjögur kennslu- og rannsóknaþemu sem öll leggja áherslu á það hvernig sjónarhorn smáríkjafræðanna nýtist ólíkum fræðigreinum. Þemun eru:

1. Utanríkis- og efnhagsmál smáríkja
2. Smáríki og flóttamannavandinn í Evrópu
3. Smáríki og alþjóðalög
4. Smáríki og áskoranir góðrar opinberrar stjórnsýslu