Höfði Friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands hlýtur styrk

Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands hlaut nýverið styrk úr sjóði The Joint Committee for Nordic Research Councils in the Humanities and Social Sciences (NOS-HS). Um er að ræða styrk til undirbúnings rannsókna á sviði lýðræðis og fjölmiðlunar í breyttu pólitísku umhverfi. Styrkurinn mun nýtast til þess að halda vinnustofur þar sem rannsóknarefnið verður mótað frekar. Aðaláhersla verður lögð á pólitíska orðræðu, lýðskrum og birtingarmyndir hatursorðræðu á samfélagsmiðlum. Gert ráð fyrir að verkefnið hefjist í janúar 2018 en fyrsta málstofan kemur til með að fara fram í Norrköping í Svíþjóð. Þar verður aðaláhersla á pólitíska orðræðu norrænu stjórnmálaflokkanna og hvernig hún endurspeglast í hatursorðræðu og andúð á innflytjendum. Önnur málstofan fer fram í Helsinki í Finnlandi í nóvember 2018 en þar verða samsæriskenningar, stjórnmál eftirsannleikans og aukin andúð í garð yfirvalda og opinberra stofnana í brennidepli. Verkefnið endar svo með málstofu hér á landi í mars 2019 þar sem sjónum verður beint að því hvernig breyta megi orðræðunni og áhersla lögð á þátttökulýðræði og aukna aðkomu almennings að mikilvægum ákvörðunum.

Háskóli Íslands leiðir verkefnið en samstarfsaðilar eru Háskólinn í Linköping í Svíþjóð og Háskólinn í Helsinki í Finnlandi. Pia Hansson, forstöðumaður Höfða Friðarseturs, Auður Örlygsdóttir, verkefnisstjóri setursins, Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði og forseti Hugvísindasviðs, Jón Ólafsson, prófessor í heimspeki og Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, vinna að verkefninu fyrir hönd Höfða friðarseturs og Háskóla Íslands, í samvinnu við fræðimenn við samstarfsháskólana. Samstarfinu er ætlað að efla rannsóknir á sviði félags- og hugvísinda og ein helsta afurð verkefnisins verður að sækja í erlenda samkeppnissjóði fyrir frekari rannsóknum á sviði lýðræðis, fjölmiðlunar og pólitískrar orðræðu á Norðurlöndunum.