Úr öskunni í eldinn? Nýjar átakalínur í Mið-Austurlöndum

Opinn fundur á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, þriðjudaginn 13. mars frá kl. 12 til 13 í sal 132 í Öskju

Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í Miðausturlandafræðum við Williams College í Bandaríkjunum, heldur erindi á hádegisfundi Alþjóðamálastofnunar þar sem hann greinir nýja,  viðkvæma og flókna stöðu í stjórnmálum Mið-Austurlanda. Þetta eldfima svæði hefur gengið í gegnum umfangsmiklar breytingar á 21. öldinni sem eru að kollvarpa viðkvæmu jafnvægi svæðisins. Sjaldan eða aldrei hefur staðan verið eins tvísýn og einmitt nú.  Þetta birtist meðal annars í stríðinu í Sýrlandi og Jemen, harðnandi deilum milli Írans og Sádi Arabíu, og sviptingum í einræðisátt í Egyptalandi og Tyrklandi. Hvaða þýðingu mun þetta hafa á þróun alþjóðastjórnmála?

Magnús Þorkell Bernharðsson er prófessor í nútímasögu Mið-Austurlanda við Williams College í Bandaríkjunum. Magnús  Þorkell lauk BA prófi í stjórnmálafræði og guðfræði frá Háskóla Íslands árið 1990, MA prófi í trúarbragðafræði frá guðfræðideild Yale-háskóla árið 1992 og doktorsgráðu í nútímasögu Mið-Austurlanda frá sama skóla árið 1999. Hann hefur kennt mörg námskeið, bæði hér á landi og við háskóla í Bandaríkjunum og hefur gefið út og ritstýrt fjölda bóka. Nýjasta bók Magnúsar Mið-Austurlönd. Fortíð, nútíð, framtíð kemur út hjá Forlaginu 1. mars nk.