LIST – Leadership in Small States

Leadership in Small States

Rannsóknasetur um smáríki við Háskóla Íslands hlaut nýverið styrk úr menntaáætlun Evrópusambandsins, Erasmus+. Um er að ræða tveggja ára stefnumiðað samstarfsverkefni á háskólastigi. Háskóli Íslands leiðir verkefnið en fimm aðrir háskólar taka þátt í því: Kaupmannahafnarháskóli, Háskólinn í Vilnius, Háskólinn í Tallinn, Háskólinn í Ljubljana og Háskólinn í Lundi. Rannsóknasetur um smáríki heyrir undir Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands.

Smáríki standa frammi fyrir kerfislægum hindrunum vegna smæðar sinnar, en til þess að yfirstíga þær hindranir þurfa smáríki öðrum fremur mikla leiðtogafærni. Markmið verkefnisins „Leadership in Small States (LIST)“ er leiðtogaþjálfun fyrir nemendur og unga fræðimenn innan samstarfsskólanna. Á næstu tveimur árum munu skólarnir sex halda vikulöng námskeið á þessu sviði í Reykjavík, Tallinn, Vilnius og Kaupmannahöfn, ásamt því að þróa opið netnámskeið á háskólastigi sem verður hýst á vefsvæði edX.

Erasmus+ styrkurinn er mikil viðurkenning á starfi smáríkjasetursins sem hefur sérhæft sig í stöðu smáríkja í Evrópu. Árið 2013 hlaut setrið öndvegissetursstyrk frá menntaáætlun Evrópusambandsins og hefur síðan þá starfað sem Jean Monnet Centre of Excellence. Einnig hlaut setrið styrki úr Erasmus+ menntaáætlun Evrópusambandsins árið 2014 og 2016 fyrir verkefni sem lúta að stöðu smáríkja í Evrópu. Rannsóknasetur um smáríki hefur starfrækt sumarskóla í smáríkjafræðum frá árinu 2003 og hefur hlotið gæðaviðurkenningu Erasmus+ fyrir hann.

.