Stjórnunarhættir á norðurslóðum á tímum breytinga

Miðvikudaginn 10. apríl kl. 12:00-13:00, stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands

Opinn fundur á vegum Rannsóknaseturs um norðurslóðir við Háskóla Íslands og utanríkisráðuneytisins, í samstarfi við sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi

Stjórnunarhættir á norðurslóðum á tímum breytinga

Oscar Avila, upplýsinga- og menningarmálastjóri bandaríska sendiráðsins á Íslandi býður fólk velkomið.

Mary Durfee,Ph.D, prófessor emeritus við Tækniháskólann í Michigan (Michigan Technological University) og höfundur bókarinnar  Arctic Governance in a Changing World 

Margfeldisáhrif ógna á norðurheimsskautssvæðinu

Eitt af megin þemum bókarinnar Arctic Governance in a Changing World  eru áhrifin sem breytingar í umhverfinu geta haft á allt líf á norðurheimsskautssvæðinu. Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna telur til að mynda að umhverfisbreytingar magni upp allar aðrar ógnir sem geta steðjað að. Þessar umhverfisógnir og -breytingar geta haft mikil áhrif á daglegt líf einstaklinga á norðurslóðum sem og samfélögin, þar sem óvissan verður jafn mikill grundvallarþáttur í allri áætlanagerð og aðsteðjandi ógnir voru áður.

Rachael Lorna Johnstone, S.J.D., prófessor við Lagadeild Háskólans á Akureyri 

Fullveldi, fullveldisréttur og Hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna á tímum breytinga

Nú hafa flestar deilur ríkja um landsvæði á norðurslóðum verið leiddar til lykta – að Hans eyju undanskilinni – en annarskonar fullveldismál sem tengjast réttindum samfélaga frumbyggja eru að verða fyrirferðameiri. Slík mál, sem oft snúast um rétt á nýtingu auðlinda, gera stjórnun á svæðinu flóknari og spurningar vakna til dæmis um hvort frumbyggjasamfélög geti gert tilkall til hafsvæða eða landgrunns. Hvar fer réttur frumbyggja og Hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna (Law of the Sea) saman og hvar greinir á milli? Því er spáð að þetta málefni muni verða enn mikilvægara er fram líða stundir. 

Fundarstjóri: Margrét Cela, verkefnastjóri Rannsóknaseturs um norðurslóðir