Höfði friðarsetur hlýtur styrk fyrir námskeiðum í friðar- og átakafræðum

Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands hlaut nýverið styrk úr sjóði Nordplus Higher Education. Um er að ræða styrk til undirbúnings þriggja örnámskeiða í friðar- og átakafræðum. Námskeiðin verða haldin í Noregi, Finnlandi og á Íslandi og verða opin fyrir nemendur Háskóla Íslands sem og nemendur samstarfsháskólanna. Með námskeiðunum er stigið fyrsta skrefið í átt að því að geta boðið upp á námsbraut á meistarastigi í átaka- og friðarfræðum við Háskóla Íslands.

Námskeiðin munu byggja á nýjustu rannsóknum og þekkingu á sviði friðar- og átakafræða en aðaláhersla verður lögð á að skoða þátttöku og hlutverk borgara, félagasamtaka, borga og stofnana í friðarferlum út frá kenningum í kynjafræði. Samhliða námskeiðunum munu skólarnir þróa nýtt námsefni í átaka- og friðarfræðum sem nýtt verður í kennslu innan þeirra og einnig gert aðgengilegt á vef samstarfskólana.

Háskóli Íslands leiðir verkefnið en samstarfsaðilar eru CPS, friðarsetrið við Norðurslóðaháskóla Noregs í Tromsö (UiT – The Arctic University of Norway) og TAPRI, friðarsetrið við háskólann í Tampere (University of Tampere) í Finnlandi. Pia Hansson, forstöðumaður Höfða Friðarseturs, Auður Örlygsdóttir, verkefnisstjóri setursins, Silja Bára Ómarsdóttir, dósent við Stjórnmálafræðideild og Guðrún Sif Friðriksdóttir, doktorsnemi í mannfræði við Háskóla Íslands, vinna að verkefninu fyrir hönd Höfða friðarseturs og Háskóla Íslands, í samvinnu við fræðimenn við samstarfsháskólana.