Velferð, styrkur og samfélagsleg þátttaka ungmenna á norðurslóðum

Þriðjudaginn 10. september, 12:00-16:00

Fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands, Suðurgötu 41, 101 Reykjavík

Opin ráðstefna af tilefni fundar vinnuhóps Norðurskautsráðsins um sjálfbæra þróun.

Norðurslóðir eru í auknum mæli í brennidepli vegna loftslagsbreytinga og áhrifa þeirra á náttúru efnahag og samfélag. Ekki er oft rætt um hvernig þessar breytingar snerta yngri kynslóðir á svæðinu, velferð þeirra og viðhorf til sjálfbærrar framtíðar norðlægra samfélaga, t.d. með tilliti til menntunar, atvinnu, fólksflutninga eða heilsufars, þ.m.t. geðheilbrigðis og tíðni sjálfsvíga sem víða á þessu svæði er mjög há. 

Á ráðstefnunni verður fjallað um stöðu, viðhorf og samfélagslega þátttöku ungmenna sem endurspeglast í ýmsum rannsóknum og verkefnum, með sérstakri áherslu á verndandi þætti og félagslega stöðu. Rætt verður um styrkleika og velferð ungmenna á norðurslóðum sem og tengingu rannsókna við raunverulegar aðstæður. Áhersla verður á forvarnir í geðheilbrigðismálum með áfallamiðaðri nálgun og virkri þátttöku ungmenna, virðingu fyrir menningarlegum fjölbreytileika og sjálfbærni. 

Ráðstefnan fellur undir þann lið formennskuáætlunar Íslands í Norðurskautsráðinu sem snýr að velferð fólks og norðlægra samfélaga. Helstu niðurstöður verða kynntar á fundi vinnuhóps Norðurskautsráðsins um sjálfbæra þróun sem fer fram á Ísafirði í kjölfarið. 

Að ráðstefnunni stendur Utanríkisráðneyti Íslands í samstarfi við Norðurslóðanet Íslands, Rannsóknasetur um norðurslóðir við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri.