Notkun áhættugreiningaaðferða til að meta björgunarviðbúnar á norðurslóðum

Opinn fundur í fyrirlestrarsal Þjóðarbókhlöðunnar, Arngrímsgötu 3

Þriðjudaginn 1. október frá 12:00-13:00

 

Vísindi á norðurslóðum

Fyrirlestraröð Rannsóknaseturs um norðurslóðir við Háskóla Íslands

Veturinn 2019-2020

 

Notkun áhættugreiningaaðferða til að meta björgunarviðbúnað á norðurslóðum

 

Málefni norðurslóða hafa í vaxandi mæli ratað í umræðuna á undanförnum misserum. Áhrif loftslagsbreytinga eru víðtæk bæði á umhverfið og allt líf á norðurslóðum. Við Háskóla Íslands leggur fjöldi fræðimanna stund á rannsóknir sem tengjast norðurslóðum. Markmið þessarar fyrirlestraraðar er annars vegar að kynna þá fjölbreyttu flóru rannsókna við háskólann sem lúta að norðurslóðum og hinsvegar að efla opinbera umræðu um þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir og leita góðra leiða til að takast á við þær.

 

Á öðrum fundi fyrirlestrarraðarinnar mun Björn Karlsson gefa stutta kynningu á verkfræðilegum aðferðum við áhættugreiningu og áhættumat og því lýsa hvernig slíkar aðferðir eru notaðar á hagnýtan hátt. Hann mun sérstaklega fjalla um verkefni þar sem slíkar aðferðir eru notaðar til að meta áhættu og björgunarmöguleika vegna slysa á norðurslóðum.

Dr. Björn Karlsson er byggingarverkfræðingur að mennt með doktorspróf frá Háskólanum í Lundi, þar sem hann starfaði við kennslu og rannsóknir í byggingarverkfræði í tæpa tvo áratugi. Hann starfaði sem gestaprófessor við University of Maryland 1996, var skipaður brunamálastjóri og forstöðumaður Brunamálastofnunar árið 2001. Hann var ráðinn forstjóri Mannvirkjastofnunar 2011 og fer með ábyrgð á rafmagnsöryggi, regluverki byggingariðnaðarins og málefnum björgunarþjónustu slökkviliða á Íslandi og eldvörnum, ásamt margvíslegum verkefnum á sviði markaðseftirlits með byggingarvörum, rafmagnsvörum, orkunýtingu og ýmsu öðru. Með leyfi ráðherra hefur Björn síðan 2006 starfað samhliða sem hlutastarfandi dósent við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands, þar sem sérfræðisvið hans er brunavarnaverkfræði og áhættuverkfræði (e. risk engineering) og hefur verið leiðbeinandi margra meistara- og doktorsnema á sínu sérsviði.

 

Fundurinn fer fram á íslensku og er opinn öllum á meðan húsrúm leyfir.