Söknuðurinn eftir Grænlandi. Íslensk-grænlensk samskipti á 19. og 20. öld.

Fyrirlestraröð á vegum Rannsóknaseturs um norðurslóðir við Háskóla Íslands veturinn 2019-2020


Söknuðurinn eftir Grænlandi. Íslensk-grænlensk samskipti á 19. og 20. öld.

Opinn fundur föstudaginn 25.október frá kl. 12-13 í fyrirlestrasal Þjóðarbókhlöðunnar, Arngrímsgötu 3


Á þriðja fundi fyrirlestrarraðarinnar mun Sumarliði R. Ísleifsson fjalla um afstöðu Íslands til Grænlands á 20. öld, með sögulegum aðdraganda. Hann gerir grein fyrir hvernig viðhorf til landsins byggðust oft upp af andstæðum, annars vegar var Grænland illt og fátt gott um það að segja en hins vegar gat Grænland einnig verið eftirsóknarvert og aðlaðandi. Samhliða mun Sumarliði ræða um það hvernig Grænland hefur allt frá öndverðu verið hluti af sjálfsmyndamótun Íslendinga og í framhaldinu fjalla um það hvernig og hvers vegna afstaða til Grænlands breyttist á ofanverðri 20. öld.

Sumarliði er lektor í hagnýtri menningarmiðlun við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Hann hefur lengi unnið að rannsóknum á viðhorfum til Íslands og Grænlands og skrifað um það bækur og greinar. Þá hefur hann einnig unnið að rannsóknum á stjórnmála-, atvinnu- og félagssögu 20. aldar og fjallað um þau efni sem rannsakandi, höfundur og ritstjóri.


Fundurinn fer fram á íslensku og er opinn öllum á meðan húsrúm leyfir.Vísindi á norðurslóðum: Málefni norðurslóða hafa í vaxandi mæli ratað í umræðuna á undanförnum misserum. Áhrif loftslagsbreytinga eru víðtæk bæði á umhverfið og allt líf á norðurslóðum. Við Háskóla Íslands leggur fjöldi fræðimanna stund á rannsóknir sem tengjast norðurslóðum. Markmið þessarar fyrirlestraraðar er annars vegar að kynna þá fjölbreyttu flóru rannsókna við háskólann sem lúta að norðurslóðum og hinsvegar að efla opinbera umræðu um þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir og leita góðra leiða til að takast á við þær.