Kerfislæg áhætta tengd olíuslysum á hafi úti og möguleg áhrif á norðurslóðum


Opinn fundur 7.nóvember frá kl. 12-13 í fyrirlestrasal Þjóðarbókhlöðunnar, Arngrímsgötu 3

Allri efnahagsþróun fylgir áhætta, ekki síður en tækifæri. Áhætta er af fyrirtækjum eða fjárfestum að öllu jöfnu metin fyrir einstök verkefni eða eignasöfn, en ekki út frá kerfislægum þáttum. Í þessu erindi mun Lára Jóhannsdóttir fjalla um kerfislæga áhættu tengda olíuslysum á hafi úti og niðurstöður ræddar út frá mögulegum áhrifum á norðurslóðum. Umfjöllunin byggir á skoðun greiningu á gögnum sem tengjast 10 stærstu olíuslysunum á hafi úti, en slysin tengjast bæði olíuvinnslu sem og flutningi á jarðefnaeldsneyti.

Kerfislæg greining á niðurstöðum leiddi í ljós 5 meginflokka áhrifa eða afleiðinga en þeir eru: 1) félagsleg og menningarleg áhrif, 2) umhverfisleg áhrif, 3) efnahagsleg áhrif, 4) stefnumarkandi og lagaleg áhrif og 5) áhrif á rekstraraðila og samstarfsaðila þeirra. Hafa þarf í huga, þegar niðurstöður eru ræddar, að á norðurslóðum eru mismunandi hagkerfi, þ.e. sjálfsþurftarhagkerfi, blönduð hagkerfi og fjárvædd hagkerfi. Það sem talist getur áhætta fyrir fjárvædd hagkerfi getur verið áhætta fyrir sjálfsþurftar- eða blönduð hagkerfi. Niðurstöður hafa fræðilegt gildi, þar sem lítið er um kerfislægar greiningar eins og hér er fjallað um, og hagnýtt gildi til að mynda fyrir fyrirtæki, stjórnvöld og samtök frumbyggja á norðurslóðum.


Lára Jóhannsdóttir er prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Rannsóknir Láru snúa í víðum skilningi að fyrirtækjum, sjálfbærni og samfélagslegri ábyrgð þeirra, sér í lagi hlutverki fjármálafyrirtækja á því sviði, ábyrgum fjárfestingum, umhverfis- og loftslagsmálum sem og að norðurskautsmálum. Lára var valin valin til þátttöku í samstarfsverkefni Fulbright á sviði Norðurskautsfræða, Fulbright Arctic Initiative (FAI), fyrir tímabilið 2018-2019. Rannsóknarverkefni Láru snéri að hlutverki vátryggingarfélaga í efnahagslegri þróun á Norðurskautssvæðinu, en skoðun olíuslysa á hafi úti var liður í að draga fram hlutverk vátryggingafélaganna. Lára hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu en hún starfaði um 14 ára skeið (1992-2006) sem sérfræðingur og stjórnandi í vátryggingageiranum á Íslandi. Á árunum 2011-2019 sat hún í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Búnaðarbanka Íslands (LSBÍ).


Fundurinn fer fram á íslensku og er opinn öllum á meðan húsrúm leyfir.

Vísindi á norðurslóðum:
Málefni norðurslóða hafa í vaxandi mæli ratað í umræðuna á undanförnum misserum. Áhrif loftslagsbreytinga eru víðtæk bæði á umhverfið og allt líf á norðurslóðum. Við Háskóla Íslands leggur fjöldi fræðimanna stund á rannsóknir sem tengjast norðurslóðum. Markmið þessarar fyrirlestraraðar er annars vegar að kynna þá fjölbreyttu flóru rannsókna við háskólann sem lúta að norðurslóðum og hinsvegar að efla opinbera umræðu um þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir og leita góðra leiða til að takast á við þær.