Frásagnarhefð og efnisleiki lunda og hvítabjarna

Opinn fundur miðvikudaginn 22. janúar frá klukkan 12-13 í Odda 101, Háskóla Íslands

Samband fólks við tvær dýrategundur, hvítabirni og lunda, er hér til umfjöllunar. Rætt er um með hvaða hætti hlutverk þeirra hefur fléttast saman við sjálfsmyndir og mismunandi menningarlegt samhengi. Hvernig hefur merking þessara dýra tekið breytingum á síðustu árum? Þar má  nefna ýmsa merkingarauka í tengslum við loftslagsbreytingar, aukna umhverfisvitund og vaxandi áherslur á norðurslóðir sem birtast í myndrænni og efnislegri framsetningu, til dæmis í íslenskri ferðaþjónustu. Jafnframt verða tekin til umfjöllunar dæmi um hvernig íslenskir myndlistarmenn hafa unnið með þessi dýr, meðal annars til þess að varpa gagnrýnu ljósi á menningarlega sjálfsmynd Íslendinga í hnattvæddum heimi samtímans og vekja upp umræður um umhverfismál. 

Kristinn Schram er dósent í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Hann rannsakar meðal annars notkun frásagna og efnismenningar í mótun sjálfsmyndar og menningarpólitík. Hann er meðstjórnandi í þverfaglega rannsóknarverkefninu Ísbirnir á villigötumþar sem hann rannsakar meðal annars tengsl fólks og dýra í samhengi hreyfanleika á norðurslóðum og loftslagsbreytinga.

Katla Kjartansdóttir er doktorsnemandi í safnafræði við Háskóla Íslands. Hún hefur tekið þátt í margvíslegum verkefnum og sýningum sem snúa að norðurslóðum. Í því samhengi má nefna: The Arctic – While the Ice is Melting í Nordiska Museet í Stokkhólmi, Hlutir í huga í Norræna húsinu í Reykjavík og öndvegisverkefnið Ísbirnir á villigötum.

Fundurinn fer fram á íslensku og er opinn öllum á meðan húsrúm leyfir.

Vísindi á norðurslóðum: 
Málefni norðurslóða hafa í vaxandi mæli ratað í umræðuna á undanförnum misserum. Áhrif loftslagsbreytinga eru víðtæk bæði á umhverfið og allt líf á norðurslóðum. Við Háskóla Íslands leggur fjöldi fræðimanna stund á rannsóknir sem tengjast norðurslóðum. Markmið þessarar fyrirlestraraðar er annars vegar að kynna þá fjölbreyttu flóru rannsókna við háskólann sem lúta að norðurslóðum og hinsvegar að efla opinbera umræðu um þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir og leita góðra leiða til að takast á við þær.