Eyjavistkerfi norðurslóða: Áhrif loftslagsbreytinga og beitar

Opinn fundur þriðjudaginn 10. Mars frá klukkan 12-13 í Veröld – húsi Vigdísar ,stofu 023, Háskóla Íslands

Eyjavistkerfi norðurslóða: Áhrif loftslagsbreytinga og beitar

Loftslaghlýnun er tvöfalt hraðari yfir heimskautasvæðunum en annarsstaðar í heiminum. Í köldum sífrerajarðvegi þessara svæða er að finna gífurlegt forðabúr lífrænna efna sem gæti losnað úr læðingi á formi gróðuhúsalofttegunda við hlýnun loftslags og magnað þar með hnattræna hlýnun enn frekar. Það er því mikilvægt að skilja hvernig túndruvistkerfi bregðast við hlýnun jarðar.  Hins vegar eiga sér stað flókin samspil ólífrænna (m.a. loftslag) og lírfænna þátta (lífverur) í flestum vistkerfum og viðbrögð þeirra við hlýnun eru því ekki alltaf fyrirsjáanleg. Eyjar markast t.d. af því að þar er að finna hlutfallsega fáar tegundir lífvera og getur það sett mark sitt á starfsemi vistkerfanna. Í erindinu mun Ingibjörg fjalla um rannsóknir sínar á gróðri túndrunnar á tveimur eyjum, Íslandi og Svalbarða, og hvernig beit mótar viðbrögð þeirra við loftslagbreytingum.

Ingibjörg Svala Jónsdóttir er prófessor í vistfræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands síðan 2009. Hún starfaði lengi við háskólana í Lundi og Gautaborg og síðar í alls tíu ár við Háskólasetrið á Svalbarða. Hún rannsakar landvistkerfi norðurslóða með áherslu á samspil plantna og dýra og hvernig túndruvistkerfi bregðast við loftslagsbreytingum.

Fundurinn fer fram á íslensku og er opinn öllum á meðan húsrúm leyfir.

Vísindi á norðurslóðum: 
Málefni norðurslóða hafa í vaxandi mæli ratað í umræðuna á undanförnum misserum. Áhrif loftslagsbreytinga eru víðtæk bæði á umhverfið og allt líf á norðurslóðum. Við Háskóla Íslands leggur fjöldi fræðimanna stund á rannsóknir sem tengjast norðurslóðum. Markmið þessarar fyrirlestraraðar er annars vegar að kynna þá fjölbreyttu flóru rannsókna við háskólann sem lúta að norðurslóðum og hinsvegar að efla opinbera umræðu um þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir og leita góðra leiða til að takast á við þær.