Nemendur kortleggja Uppbyggingarsjóð EES

Þann 2. júní síðastliðinn hófst rannsóknarvinna á tækifærum íslenskra aðila í Uppbyggingarsjóði EES af fullum krafti með fundi í utanríkisráðuneytinu. Meistaranemarnir Hjördís Lára Hlíðberg og Matthías Aron Ólafsson vinna greininguna en þau funduðu um verkefnið með fulltrúum utanríkisráðuneytisins, Rannís, Orkustofnunar, Mannréttindaskrifstofu Íslands og starfsmönnum sjóðsins. Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands hlaut styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna til verkefnisins en því er ætlað að bera kennsl á aukin tækifæri íslenskra aðila til þátttöku innan sjóðsins. Umsjónarmenn verkefnisins eru Jón Gunnar Ólafsson, starfandi forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar og Tómas Joensen, verkefnisstjóri Rannsóknaseturs um smáríki.

Uppbyggingarsjóður EES hefur það að markmiði að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði innan Evrópska efnahagssvæðisins og að efla tvíhliða samstarf milli EFTA ríkjanna innan EES og fimmtán viðtökuríkja sjóðsins í Evrópu. Á seinasta tímabili 2009-2014 nam heildarúthlutun uppbyggingarsjóðsins 988,5 milljónum evra og runnu tæpar 5 milljónir evra til íslenskra aðila í formi verkefnastyrkja í um 240 þátttökutilvikum. Verkefnið leitast við að greina hvort þessi aukni aðgangur að verkefnastyrkjum á sviði rannsókna og nýsköpunar hafi verið nýttur og þá hvað hefur verið gert til að nýta þau nýju tækifæri sem hafa opnast fyrir íslenskum háskólum, stofnunum og fyrirtækjum.

Gerð verður yfirlitsskýrsla um hverjir íslensku þátttakendurnir eru, heiti verkefna og upphæð styrkja á öllum sviðum sem uppbyggingarsjóðurinn styrkti fyrir tímabilið 2009-2014, og eins og gögn leyfa fyrir yfirstandandi tímabil 2014-2021. Mikilvægt er að íslensk stjórnvöld hafi skýra sýn á það hvort þær áherslur sem lagt var upp með í byrjun núverandi tímabilsins hafi skilað tilætluðum árangri. Lögð hefur verið megináhersla á að opna fyrir mögulegt samstarf íslenskra aðila við viðtökuríki sjóðsins (15 talsins) á sviði rannsókna, nýsköpunar, menntunar og menningar, orku- og umhverfismála, samfélagslegra umbóta (þ.m.t. jafnréttismál) og málefna flóttamanna; nýtingu jarðvarma í þeim löndum þar sem það er fýsilegt; og að greiða fyrir markvissum tvíhliðaverkefnum stjórnvalda við viðtökuríki sjóðsins.

Nýsköpunargildi verkefnisins nýtist jafnframt íslenskum stjórnvöldum en utanríkisráðuneytið sér um samninga við Evrópusambandið fyrir Íslands hönd er varða þátttöku Íslands í Uppbyggingarsjóði EES. Hægt er að fræðast enn frekar um sjóðinn á www.ees.is.