Afvopnunar- og öryggismál í brennidepli á alþjóðlegu námskeiði í samningatækni

Samningatækninámskeiðið ACONA (Arms Control Negotiation Academy) sem Höfði friðarsetur stendur að ásamt fimm öðrum virtum stofnunum frá Bandaríkjunum, Evrópu og Rússlandi hófst í dag. ACONA samanstendur af þremur fimm daga námskeiðum um samninga á sviði afvopnunarmála þar sem 16 upprennandi leiðtogar á sviði afvopnunarmála, -tækni og alþjóðasamninga fá þjálfun í að leita nýrra skapandi leiða til að draga úr spennu milli stórvelda. Þátttakendur voru valdir úr framúrskarandi hópi umsækjanda víðs vegar að úr heiminum en tveir fulltrúar frá Íslandi sitja námskeiðið, sem að þessu sinni mun fara fram á netinu, en það eru þær Álfrún Perla Baldursdóttir, sérfræðingur hjá utanríkisráðuneytinu og Brynja Huld Óskarsdóttir, öryggis- og varnarmálafræðingur.

 

Blikur hafa verið á lofti í alþjóðasamstarfi á sviði afvopnunarmála og vopnatakmarkana, en þar má nefna endalok samningsins um takmörkun meðaldrægra kjarnaflauga (INF-samningurinn), úrsögn Bandaríkjanna úr samningnum um opna lofthelgi (Open Skies samningurinn) og óvissu um framtíð nýja START samningsins. Ef ekki er gripið til aðgerða strax getur það orðið svo að engir afvopnunarsamningar verði í gildi í heiminum í fyrsta skipti síðan á sjöunda áratug síðustu aldar. Það hefur því aldrei verið mikilvægara en nú að bjóða upp á þjálfun og kennslu á sviði afvopnunarmála.

ACONA mun standa yfir í eitt ár en á þeim tíma öðlast þátttakendur færni í að undirbúa sig fyrir og meta flóknar samningaviðræður og vinna saman að alþjóðlegum rannsóknarverkefnum þar sem áhersla er á að þróa nýjar hugmyndir um framtíð afvopnunarmála.

Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands og Davis Center við Harvard háskóla ​​​standa fyrir námskeiðunum í samstarfi við Wilson Center í Washington, The Higher School of Economics University í Moskvu, The Peace Research Institute í Frankfurt og The Moscow State Institute of International Relations í Moskvu.

ACONA er fjármagnað af Fondation „Avec et pour autres,“ the Negotiation Task Force við Davis Center í Harvard háskóla, ríkisstjórn Íslands og Háskóla Íslands.

Nánari upplýsingar hér