Rannsóknarverkefni

Alþjóðamálastofnun leggur ríka áherslu á að auka rannsóknir í alþjóðamálum, smáríkjafræðum og málefnum norðurslóða. Leitast er við að vinna að rannsóknaverkefnum með erlendum fræðimönnum og áhersla er lögð á þverfaglegt samstarf. Stofnunin og rannsóknasetrin tvö tengjast fjölda erlendra fræðimanna og erlendra rannsóknastofnana.

Á árunum 2009-2012 tók Alþjóðamálastofnun þátt í fjölþjóðlega rannsóknarverkefninu EU4SEAS um áhrif Evrópusambandsins á milliríkjasamstarf umhverfis fjögur innhöf Evrópu – Eystrasalt, Kaspíahaf, Miðjarðarhaf og Svartahaf. Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands var ein átta rannsóknarstofnana sem komu að EU4SEAS – frá fjórum ríkjum innan Evrópusambandsins og fjórum utan þess. Hér er að finna frekari upplýsingar um verkefnið.

Rannsóknasetur um smáríki hlaut árið 2013 öndvegisstyrk frá Menntaáætlun Evrópusambandsins og mun því næstu þrjú árin starfa sem Jean Monnet öndvegissetur (Jean Monnet Centre of Excellence). Í tengslum við styrkinn mun rannsóknasetrið leggja áherslu á þrjá tiltekna þætti. Í fyrsta lagi að efla þverfaglegar rannsóknir og kennslu um Evrópusamrunann, Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið. Í öðru lagi að stofna alþjóðlegan skóla um smáríki, stjórnsýslu þeirra og stöðu innan Evrópusambandsins. Í þriðja lagi að gefa út kennslubók ætlaða framhalds- og háskólanemum á íslensku um Evrópusamrunann. Að auki mun setrið eftir sem áður standa fyrir margvíslegum fundum og ráðstefnum, og útgáfu um Evrópumál. Öndvegisstyrkurinn er mikil viðurkenning á starfi Smáríkjasetursins sem hefur sérhæft sig í stöðu smáríkja í Evrópu. Stofnun öndvegisseturs er framhald á fyrri viðurkenningum sem setrið hefur hlotið en þar má helst telja styrkveitingar úr Menntaáætlun ESB til reksturs sumarskóla um smáríki síðastliðinn tólf ár og styrki til kennsluþróunar í Evrópufræðum undir forystu Baldurs Þórhallssonar, prófessors í stjórnmálafræði, í samstarfi við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Að umsókninni stóðu, auk Baldurs, Pia Hansson, forstöðumaður Rannsóknaseturs um smáríki, Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði, Ómar H. Kristmundsson, prófessor í opinberri stjórnsýslu, Alyson Bailes, aðjúnkt við Stjórnmálafræðideild, og Maximilian Conrad, lektor við Stjórnmálafræðideild. Að auki hlaut setrið sérstakan styrk til að halda alþjóðlega ráðstefnu um hvernig best má tryggja góða stjórnsýsluhætti í smáríkjum og takast á við þær áskoranir sem þau standa frammi fyrir í alþjóðasamfélaginu.