EU4SEAS

EU4SEAS
 

Árið 2009 hlaut Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands 200.000 evru rannsóknarstyrk – eða sem nemur um 30 milljónum króna – úr 7. rammaáætlun Evrópusambandsins. Styrkinn hlaut stofnunin vegna þátttöku sinnar í verkefninu EU4SEAS, sem alls hlaut vilyrði fyrir 1,2 milljóna evru styrk.

EU4SEAS er fjölþjóðlegt rannsóknarverkefni um áhrif Evrópusambandsins á milliríkjasamstarf umhverfis fjögur innhöf Evrópu – Eystrasalt, Kaspíahaf, Miðjarðarhaf og Svartahaf. Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands var ein átta rannsóknarstofnana sem komu að EU4SEAS – frá fjórum ríkjum innan Evrópusambandsins og fjórum utan þess. Verkefnið stóð yfir frá 2009-2012 og leit til samstarfs ríkja á ýmsum sviðum.

Afar misjafnt er hvernig samstarfi strandríkja á þessum fjórum svæðum er háttað og hversu náið það er – allt frá óformlegu tvíhliða samkomulagi og upp í formfastar stofnanir með þátttöku allra hlutaðeigandi ríkja.

Meginhluti rannsóknarinnar var fjórskiptur. Í fyrsta hluta var stjórnmála- og öryggissamstarf skoðað, í öðrum hluta samstarf á sviði umhverfis- og hafréttarmála. Þriðja lota rannsóknarinnar beindist að orku- og samgöngumálum, en í lokaumferð rannsóknarinnar var kannað hvaða áhrif fjórfrelsi ESB hefur á svæðunum – það er frjálsir vöruflutningar, frjáls för fólks, frjáls þjónustustarfsemi og frjálsir fjármagnsflutingar.

Í kjölfar þessara fjögurra rannsóknarlota var niðurstöðum safnað saman og kannað hvernig hægt væri að nýta þær til að bæta hvernig málum er háttað á hverju svæði fyrir sig.

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands hafði á sinni könnu rannsóknir á umhverfis- og hafréttarmálum og beindi sjónum sínum sérstaklega að Eystrasaltinu.

Allar nánari upplýsingar um EU4SEAS verkefnið má nálgast á vefsíðu rannsóknarinnar.