Þjónustuverkefni

Markmið Alþjóðamálastofnunar er að auka samstarf á milli fræðimanna, atvinnulífs og opinberra aðila á sviði alþjóðamála. Stofnunin býður upp á margháttaða þjónustu við atvinnulífið og hið opinbera, til dæmis skýrslugerð, gerð kannana og rannsóknaverkefna. Alþjóðamálastofnun gengst auk þess fyrir símenntunarnámskeiðum, ráðstefnum, umræðufundum og fyrirlestrum um efni sem varða starfsvið stofnunarinnar.

Alþjóðamálastofnun gætir hlutleysis og grundvallaratriði í starfi stofnunarinnar er að unnið sé á fræðilegan hátt að öllum viðfangsefnum. Leitast er við að fá erlenda fræðimenn til að vinna við flest þjónustu- og rannsóknaverkefni stofnunarinnar. Hið víðfeðma net fræðimanna eykur til muna möguleika á samanburðarannsóknum milli landa sem dýpkar þannig gildi þjónustuverkefna.

Greining á þjónustu við flóttafólk og innflytjendur
Innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið leituðu til Háskóla Íslands vorið 2016 um gerð greiningar á gæðum þjónustu við flóttafólk og innflytjendur og hugsanlegum umbótatækifærum. Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands tók að sér verkefnastjórnun verkefnisins með aðstoð stýrihóps átaks Háskóla Íslands, Fræði og fjölmenningar. Við gerð skýrslunnar var lögð áhersla á að skoða þjónustu við flóttafólk sérstaklega. Skýrslan er margþætt og er þar að finna bæði eigindlegar og megindlegar rannsóknir á viðhorfum flóttafólksins sjálfs á þeirri þjónustu sem það hefur fengið á Íslandi. Einnig er viðhorf starfsfólks til þjónustunnar skoðað sem vinnur dagsdaglega við aðlögun flóttafólks. Horft er til þess hvernig þjónusta við flóttafólk er í nágrannalöndunum og hún borin saman við þjónustu hér á landi. Að lokum eru skoðaðir möguleikar á umbótum á málefnum útlendinga og innflytjenda almennt með það í huga að auka samþættingu og skilvirkni stjórnsýslunnar.

Hér má nálgast skýrsluna í heild sinni (Útgáfuár: 2017).

Úttekt á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið
Haustið 2013 var leitað til Alþjóðamálastofnunar um úttekt á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Verkbeiðendur voru Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins, Félag atvinnurekenda og Viðskiptaráð Íslands. Markmið verkefnisins var að leggja mat á stöðu aðildarviðræðna Íslands og Evrópusambandsins, að greina þau álitaefni sem eru til staðar og þá kosti sem eru í stöðunni.

Hér má nálgast úttektina í heild sinni. (Útgáfurár: 2014)

Rannsóknasetur um norðurslóðir hefur frá vorinu 2013 haldið utan um samnorrænt samstarfsverkefni fimm háskóla, Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Háskólans í Færeyjum, Háskólans á Grænlandi og Nordland háskóla í Norður Noregi. Verkefnið snýst um að hanna nýtt þverfræðilegt meistaranám sem ber nafnið West Nordic Studies: Governance and Sustainable Management. Námið hefst haustið 2015 og nánari upplýsingar um það má finna á: http://westnordicstudies.net