Um stofnunina

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands

Markmið Alþjóðamálastofnunar er að vera leiðandi í rannsóknum um alþjóðamál og stöðu Íslands á alþjóðavettvangi. Hún stuðlar að upplýstri umræðu meðal fræðimanna, almennings og annarra aðila, sem láta sig íslensk utanríkismál og alþjóðamál varða. Tilgangur Alþjóðamálastofnunar er jafnframt að auka gæði og framboð náms um alþjóðamál og smáríki í grunn- og framhaldsnámi á háskólastigi, og að vera þjónustustofnun við atvinnulífið og hið opinbera. Til að ná þessum markmiðum beitir Alþjóðamálastofnun sér fyrir auknu samstarfi milli fræðimanna, atvinnulífs og opinberra aðila á sviði alþjóðamála og gengst fyrir ráðstefnum, umræðufundum og fyrirlestrum um efni sem tengjast starfssviði stofnunarinnar. Stofnunin er vettvangur fyrir fræðileg alþjóðasamskipti og þverfagleg þjónustuverkefni fyrir atvinnulíf, fyrirtæki og stofnanir. Fagmannleg vinnubrögð og trúverðugleiki eru höfð að leiðarljósi í starfi Alþjóðamálastofnunar. Rannsóknasetur um smáríki, Rannsóknasetur um norðurslóðir og Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands starfa innan vébanda Alþjóðamálastofnunar.

Alþjóðamálastofnun stendur fyrir ráðstefna á síðasta vetrardegi ár hvert í samstarfi við innlenda og erlenda samstarfsaðila um þau mál sem eru efst á baugi innan rannsóknasviða stofnunarinnar hverju sinni.

Forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar er Pia Hansson og verkefnisstjóri stofnunarinnar er Auður Birna Stefánsdóttir.

Rannsóknasetur um smáríki

Rannsóknasetur um smáríki hefur þegar skapað sér alþjóðlegan sess á sviði smáríkjarannsókna. Markmið setursins er að efla rannsóknir og fræðslu á smáríkjum og stöðu þeirra í alþjóðakerfinu, en frumkvæði að stofnun þess átti Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Rannsóknasetrið hefur hlotið ýmsa styrki og viðurkenningar, eins og t.d. árlegan styrk frá ERASMUS til þess að halda sumarskóla á Íslandi um stöðu smáríkja í Evrópusamrunanum og þær breytingar sem nú eiga sér stað í öryggismálum Evrópu. Setrið hefur staðið fyrir fjölda alþjóðlegra ráðstefna og gefið út umtalsvert efni um smáríki. Árið 2013 hlaut setrið öndvegisstyrk frá Menntaáætlun Evrópusambandsins og hefur því starfað undanfarin fimm ár sem Jean Monnet öndvegissetur (Jean Monnet Centre of Excellence).

Verkefnisstjóri rannsóknaseturs um smáríki er Tómas Joensen en rannsóknastjóri setursins er Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði.

Rannsóknasetur um norðurslóðir

Rannsóknasetur um norðurslóðir er vettvangur fyrir þverfaglegt samstarf á sviði norðurslóðarannsókna með áherslu á hlutverk og stefnu ríkja og stofnana, og stjórnarhætti á norðurslóðum. Hlutverk Rannsóknaseturs um norðurslóðir er að vinna að rannsóknaverkefnum í samstarfi við innlenda og erlenda aðila, að auka samstarf milli fræðimanna, atvinnulífs og opinberra aðila og vera leiðandi í rannsóknum á þessu sviði. Auk þess stendur setrið fyrir ráðstefnum, umræðufundum, fyrirlestrum og námskeiðum um efni sem varða starfssvið þess og útgáfu rita um málefni norðurslóða. Setrið vinnur einnig þjónustuverkefni fyrir atvinnulíf og opinbera aðila og styður við kennslu í norðurslóðamálefnum.

Verkefnisstjóri Rannsóknaseturs um norðurslóðir er Margrét Cela.

Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands

Höfði friðarsetur er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands og er vettvangur fyrir þverfaglegt og alþjóðlegt samstarf með áherslu á hlutverk borga, smáríkja og almennra borgara í að stuðla að friði, friðarmenningu og friðarfræðslu. Reykjavíkurborg hefur lagt áherslu á mannréttindi og friðarstarf og því er stofnun Höfða friðarseturs liður í því að styrkja Reykjavík sem borg friðar. Stór þáttur í starfsemi setursins felst einnig í því að efla rannsóknir á friðar- og öryggismálum, og byggja þannig upp fræðigrunn sem nýtist út fyrir fræðasamfélagið, en eitt af markmiðum setursins er að koma á fót námsbraut í átaka- og friðarfræðum við Háskóla Íslands.

Með stofnun Höfða friðarseturs gefst Alþjóðamálastofnun færi á að víkka út rannsóknarsvið stofnunarinnar og beina sjónum í auknum mæli að þeim áskorunum sem nútímasamfélög standa frammi fyrir, eins og loftslagsbreytingum, málefnum flóttamanna, auknum fjölbreytileika og aukinni þjóðernishyggju og lýðskrumi í samfélagsumræðu. Höfði friðarsetur stendur reglulega fyrir opnum fundum innan Háskóla Íslands þar sem umræða um hlutverk borga og almennra borgara í að stuðla að friði og friðarmenningu er í brennidepli. Setrið stendur einnig fyrir friðarfræðslu á sumarnámskeiði fyrir börn af ólíkum uppruna á vori hverju og þann 10/10 ár hvert stendur setrið fyrir alþjóðlegri ráðstefnu þar sem áherslan er á framlag ungs fólks til friðar.

Verkefnisstjóri Höfða friðarseturs er Auður Örlygsdóttir.

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands heyrir undir Félagsvísindasvið og Hugvísindasvið, en stofnunin er með aðsetur á Aragötu 9, 102 Reykjavík.