Nám

Eitt af þremur meginmarkmiðum Alþjóðamálastofnunar er að auka framboð og gæði náms um alþjóðamál og smáríki í grunn- og framhaldsnámi á háskólastigi. Til að ná því markmiði hafa stjórnarmenn í Alþjóðamálastofnun og Rannsóknasetri um smáríki tekið virkan þátt í mótun nýrra námskeiða, meðal annars þróun meistaranáms í alþjóðasamskiptum. Þá hafa stofnanirnar boðið bæði innlendum og erlendum stúdentum og kennurum upp á stúdenta- og kennaraskipti, rekið árlegan sumarskóla og þróað námsefni til birtingar á vefnum.

Sumarskóli Smáríkjasetursins. Small States and European Integration
Rannsóknasetur um smáríki hefur frá því sumarið 2003 boðið upp á sumarskóla (intensive program) um smáríki og Evrópusamrunann. Skólinn stendur í tvær vikur og er opinn fyrir bæði erlenda og innlenda stúdenta. Kennt er á ensku. Helstu fræðimenn heims á sviði smáríkjafræða hafa kennt við skólann sem er einstakt tækifæri til að sækja sér þekkingu til bestu fræðimanna heims á sviði smáríkjarannsókna og Evrópumála.

Sjá nánar á vefsíðu Rannsóknaseturs um smáríki

Meistaranám í alþjóðasamskiptum
Meistaranám í alþjóðasamskiptum er 120 eininga hagnýtt og fræðilegt nám sem hefur að markmiði að þjálfa nemendur fyrir vinnumarkaðinn og rannsóknarvinnu með frekara nám í huga. Námið býður upp á nokkurn sveigjanleika þar sem nemendur geta valið á milli níu sviða sem þeir geta sérhæft sig í en kjarni námsins miðar að því að veita nemendum ákveðna grunnkunnáttu í alþjóðasamskiptum.

Nánari upplýsingar um námið

Meistaranám í Evrópufræðum
Meistaranám í Evrópufræðum er 120 eininga hagnýtt og fræðilegt tveggja
ára nám sem hefur að markmiði að undirbúa nemendur undir fjölbreytt störf og/eða frekari rannsóknarvinnu með frekara nám í huga. Meistaranám í Evrópufræðum býr nemendur undir hvers kyns störf sem krefjast fræðilegrar jafnt sem hagnýtrar þekkingar á Evrópusamrunanum, stofnunum Evrópusambandsins og ákvarðanatöku innan þess, alþjóðasamskiptum almennt og stöðu Íslands bæði almennt í alþjóðasamfélaginu og í Evrópu.

Nánari upplýsingar um námið

Diplómanám í alþjóðasamskiptum
Diplóma í alþjóðasamskiptum er hagnýtt 30 eininga námsleið fyrir þá sem lokið hafa BA eða BS námi í einhverri grein. Nemendur sem ljúka diplómanámi (30 ECTS)  með 1. einkunn geta sótt um inngöngu í MA nám í alþjóðasamskiptum og fá þá námskeiðin að fullu metin.

Nánari upplýsingar um námið

Diplómanám í smáríkjafræðum

Diplóma í smáríkjafræðum er hagnýt og fræðileg 30 eininga námsleið fyrir þá sem lokið hafa BA- eða BS-prófi í einhverri grein. Fjallað er um þau tækifæri sem smáríki í alþjóðasamfélaginu standa frammi fyrir og þá veikleika sem þau þurfa að vinna bug á. Sérstök áhersla er lögð á að greina stöðu smáríkja í Evrópu einkum með tilliti til Evrópusamrunans. Einnig er sérstaklega fjallað um stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu sem og stöðu Íslands í Evrópu.

Nánari upplýsingar um námið